Úthlutun 1997

21. júní var úthlutað öðru sinni úr Umhverfissjóði verslunarinnar og fór úthlutunin fram í landi Landverndar í Alviðru. Úthlutað var 21,4 milljónum króna og runnu peningarnir til 24 aðila víðs vegar um landið. Verkefnin sem hlutu styrk eru afar fjölbreytt og ná meðal annars til skógræktar, ferðamennsku, uppgræðslu, fræðslu og fuglaverndar. Að baki þessum 24 aðilum stendur stór hluti þjóðarinnar enda eru á meðal styrkþega mjög öflug og sterk félög sem vinna umhverfisvernd og uppgræðslu.

 
1997.jpg

Eftirtaldir aðilar hlutu styrki úr Umhverfissjóði verslunarinnar 1997 og var úthlutað 21.397.000 kr.
 

 • Kvenfélagið Iðja – 100.000 kr.
  Til að koma upp útivistarsvæði í Ásdísarlundi í Miðfirði, V-Húnavatnssýslu. Endurnýja þurfti girðingu, planta trjám og leggja göngustíga. 
   
 • Skógræktarfélag Mosfellsbæjar – 100.000 kr.
  Til að rækta upp útivistarsvæði í Hamrahlíð ofan Blikastaða
   
 • Skógræktarfélag Neskaupstaðar – 100.000 kr.
  Til skógræktar í Kirkjubólsteig á Neskaupstað. 
   
 • Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd – 200.000 kr.
  Til að halda áfram gerð og verndun gönguleiða við Laka og Fagrafoss. 
   
 • Guðrún Bjarnason – 200.000 kr.
  Til að grisja og snyrta skóglendi í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn. Skógurinn er byggður upp af hinum þekkta frumkvöðli í skógrækt, Hákoni Bjarnasyni, fyrrverandi skógræktarstjóra, og konu hans, Guðrúnu Bjarnason. 
   
 • Sigurður H. Eiríksson – 200.000 kr.
  Til uppgræðslu í skógarlundi í útjaðri byggðar á Hvammstanga. 
   
 • Héraðsnefnd Strandasýslu – 400.000 kr.
  Til að merkja sögustaði á Ströndum. 
   
 • Galtalækjarskógur – 500.000 kr.
  Til að byggja upp og halda áfram skógrækt í Galtalækjarskógi. 
   
 • Ungmennafélag Íslands – 500.000 kr.
  Til skógræktar í Þrastarskógi. Ungmennafélagið fékk landið að gjöf frá Tryggva Gunnarssyni á 77 ára afmæli hans þann 18. október 1911. 
   
 • Skógræktarfélag Kópavogs – 500.000 kr.
  Til að setja upp fræðsluskilti á skógræktarjörð félagsins sem heitir Fossá og er í Kjós.
   
 • Skógræktarfélag Stykkishólms – 500.000 kr.
  Til að grisja skóg í landi félagsins og gera gönguleiðir. 
   
 • Magnús Magnússon – 500.000 kr.
  Til að gera heimildamynd um íslenska haförninn. Markmiðið með myndinni er að sýna fólki þennan tignarlega fugl og reyna að auka skilning á mikilvægi þess að vernda þennan stofn sem telur aðeins 35 - 40 varppör. 
   
 • Skógræktarfélag Garðabæjar – 600.000 kr.
  Til að halda áfram gerð útivistarsvæðis í landi félagsins í Sandhlíð ofan Kjóavalla. 
   
 • Ferðafélag Íslands – 600.000 kr.
  Til að bæta umgengni og umhirðu á gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur (Laugaveginum). 
   
 • SÁÁ - Staðarfelli – 627.000 kr.
  Til skógræktar í landi Staðarfells í Dalasýslu. 
   
 • Ferðamálasamtök Vestfjarða – 650.000 kr.
  Til merkinga á gönguleiðum á Vestfjörðum. Gert er ráð fyrir að merktar verði um það bil 25 gönguleiðir og gamlar póstleiðir á milli byggðarlaga. Verkefnið gengur annars vegar út á að merkja upphaf og enda gönguleiða og endurhlaða vörður og hins vegar að merkja sögustaði og helstu örnefni á leiðinni. 
   
 • Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar – 750.000 kr.
  Til að gera gönguleiðakort og merkja gönguleiðir á landssvæðinu Hraunum sem er vestan og sunnan Straumsvíkur. 
   
 • Fjallaferðir Stafafelli í Lóni – 770.000 kr.
  Til að byggja upp gönguleiðir og útivistarsvæði fyrir ferðamenn. 
   
 • Skógræktarfélag Eyfirðinga – 800.000 kr.
  Til skógræktar og friðunar í landi Hálsa í Eyjafjarðarsveit. Jörðina hefur Skógræktarfélagið leigt af landbúnaðarráðuneytinu og hyggjast félagsmenn halda áfram að rækta þar upp skóglendi eftir mikið beitarálag. 
   
 • Ólafur Arnalds – 800.000 kr.
  Til útgáfu á bæklingi sem ber nafnið „Að lesa landið". Bæklingnum er ætlað að gera almenningi kleift að skynja ástand landsins og einkenni jarðvegsrofs. 
   
 • Ferðaþjónusta í Þórsmörk – 1.000.000 kr.
  Til að lagfæra og byggja upp göngustíga á milli Húsadals og Langadals. Aðilar að samstarfsnefnd ferðaþjónustuaðila í Þórsmörk eru meðal annarra Ferðafélag Íslands, Útivist og Skógrækt ríkisins. 
   
 • Landvernd – 2.000.000 kr.
  Til uppbyggingar fræðslusetursins Alviðru í Grímsnesi. Alviðra er í eigu Landverndar og var féð notað til uppbyggingar á svæðinu samkvæmt samþykktu skipulagi jarðanna Alviðru og Öndverðarness. Skipulagið gerir ráð fyrir að svæðið allt, þ.e. beggja vegna Sogsins, verði nýtt til umhverfisfræðslu fyrir skólafólk og almenning. 
   
 • Skógræktarfélag Íslands – 4.000.000 kr.
  Til uppbyggingar skógræktar hjá aðildarfélögum sínum um land allt. Að auki fengu þau skógræktarfélög sem minnst er áað framan 2,5 milljónir. Sjóðurinn úthlutaði því árið 1997 6,5 milljónum til skógræktarfélaga. 
   
 • Húsgull á Húsavík – 5.000.000 kr.
  Félagið vinnur að uppgræðslu á Hólasandi. Hólasandur er um 13.000 hektara eyðimörk norðan Mývatns og er talið að hún sé af mannavöldum. Árið 1994 var hafin uppgræðsla af hálfu Húsagulls á Hólasandi en þetta er samvinnuverkefni áhugafólks, landeigenda, fyrirtækja, sveitarfélaga, Landgræðslu og Skógræktar ríkisins. Umhverfissjóður verslunarinnar úthlutaði sömu upphæð til Húsagulls 1996 og því hefur sjóðurinn lagt samanlagt 10 milljónir í þetta verkefni.
   

Samtals 21.397.000 kr.